Á sumum heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum er hægt að fá sálfræðiaðstoð. Sálfræðingar starfa einnig við sérfræðiþjónustu leik- og grunnskóla hjá sveitarfélögum og á vegum félagsþjónustunnar. Einnig er hægt að panta viðtöl hjá sálfræðingum á einkareknum stofum. Hægt er að nálgast lista yfir sálfræðinga á einkareknum stofum hér.

Þú getur þurft tilvísun til að komast að hjá sálfræðingi innan heilbrigðiskerfisins (t.d. frá heimilislækni) eða sérfræðiþjónustu skóla. Þú getur leitað þér aðstoðar án tilvísunar á einkareknum stofum sálfræðinga.

Erfiðir atburðir og áskoranir í lífi fólks geta kallað á faglega aðstoð. Þá beita sálfræðingar árangursríkum aðferðum við að hjálpa fólki að takast á við vandann, bæta líðan og auka lífsgæði.

Sálfræðingar vinna bæði hjá hinu opinbera og á einkareknum stofum. Sjúkratryggingar Íslands niðurgreiða ekki sálfræðiþjónustu. Mörg stéttarfélög bjóða félögum sínum niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu.

Fólk leitar til sálfræðinga af ýmsum ástæðum. Ástæðurnar geta til dæmis tengst geðrænum vanda, erfiðleikum í fjölskyldu, áföllum eða vinnutengdum vanda. Einnig leitar fólk til sálfræðinga til að fyrirbyggja vanda, ná markmiðum sínum og styrkja sig í einkalífi og starfi.